Eins manns rusl er annars fjársjóður!

brisingarmen, fjaran, fjársjóður, seaglass, Sjógler, skartgripir, steinverk, tumbling -

Eins manns rusl er annars fjársjóður!

     

Eitt af því skemmtilegasta sem ég finn í fjörunni eru glerbrot, sjóbarið gler sem hefur velkst um í sjónum í lengri tíma, jafnvel einhver ár. Hafið gefur glerinu engan afslátt af þessu ferðalagi um hafsbotninn þar sem það er slípað til í eldskírn magnaðra átaka sands og steina.

Fjaran er síðasti viðkomustaðurinn þar sem glerið, nú sjóbarið og þroskað eftir átökin er orðið að grip sem myndi sóma sér vel sem sjálft brisingarmen Freyju. Oftar en ekki endar það hinsvegar fremur en uppfylling í ruslahaug en þá sannast víst máltækið:  “Eins manns rusl er annars fjársjóður”.

Víðsvegar um heiminn er fólk að nota sjógler (seaglass) sem efnivið og eru möguleikarnir einungis takmarkaðir við ímyndunaraflið. Vinsælt er að nota það í skartgripi og ýmis listaverk en vegna þess að það hafa ekki allir tíma eða tök á því að ganga fjörur reglulega eru sumir að framleiða sjóbarið gler með tækni sem kallast tumbling.

Tumbling framleiðsla gefur einnig færi á að hafa fleiri liti og stærðir auk þess sem hægt er að stýra betur fjölda og grófleika glersins.

Sjóglerið sem Sindrandi notar er ekki unnið á neinn hátt frekar en steinarnir eða annað hráefni sem notað er í steinverkin. Þetta er með ráðum gert og er hluti af hugmynd og hönnun verkanna þar sem náttúran er hluti af hönnunarteyminu.

Stundum þvælist þessi ákvörðun fyrir t.d. þegar það vantar hjartalaga stein í ákveðnum hlutföllum eða þegar fjölskyldumynd er ekki að ganga upp vegna þess að það vantar rétta höfuðið. Sú áskorun sem felst í því að vinna frekar með en á móti náttúrulegri hönnun er einfaldlega of skemmtileg og gefur að mínu mati af sér fallegra og áhugaverðara verk.

Næst þegar þið farið í fjöruferð kíkið eftir glerbrotum, alvöru sjóbarið gler er vel slípað og rúnað, það er fjársjóðurinn, sjálft brisingarmen hafsins sem rak á þínar fjörur, til hamingju :) 

 

- Geirþrúður