Hægfara handverk! (slow crafting)

hægfara handverk, sjálfbærni, slow crafting, Slow design, Slow living, umhverfisvæn, Yarm -

Hægfara handverk! (slow crafting)

 

Á síðari hluta síðustu aldar, nánar tiltekið árið 1986 hóf Carlo Petrini upp raust sína gegn opnun McDonalds veitingastaðar í Róm en þessi viðburður er talin upphaf þess sem hefur verið nefnt Slow movement.

  Ég sá hugtakið “slow design” fyrst í viðtali við Erlu Svövu Sigurðardóttur, eiganda Yarm, en hönnun hennar krafðist þess að hún ynni efnið í teppi og púða úr íslenskri ull frá grunni. Mér fannst þessi lýsing hennar geta átt við það sem ég var að gera með steinverkin mín og ákvað að kynna mér málið. 

  Kathryn Vercillo skrifar um hvernig hugtakið virkar fyrir handverk How craft fits in the Slow Living Movement . Kathryn nálgast efnið út frá heilunarhlutverki þess að gera hlutina hægt ásamt því að vita uppruna efniviðar og jafnvel ganga enn lengra og rækta hráefnið sjálf og reyna að vinna að því að hafa handverkið sjálfbært. 

  Þessi nálgun heillaði mig og hóf ég að skoða hvernig ég gæti tileinkað mér þessa aðferð við gerð steinverkanna.

  Eitt af því sem mætti bæta er viðkemur steinverkunum eru rammarnir, en ég hef ekki fundið ramma við hæfi sem kosta ekki handlegginn en sú hugmynd að gera mína eigin krefst aðstöðu og tækja sem ég hef ekki aðgang að í dag. Engar áhyggjur, um leið og möguleiki þess að gera mína eigin ramma á hagkvæman hátt og án þess að gefa eftir fagurfræðilegum eiginleikum þá mun ég keyra rammagerðina af stað.  

  Jákvæði hlutinn er hráefnið sjálft og að það er ekkert umhverfisspor sem fylgir því þar sem að  ég fer gangandi í fjöruna við heimili mitt. 

  Söfnun á hráefninu er hægfara ferli og smellpassar í hægfara hreyfinguna en ég hef áður skrifað um heilunaráhrifin sem fylgja því að vera í núinu þegar ég sæki efnið.  

  Hreinsun á efninu felst aðallega í því að sjóða það og sápuþvo. Í einstaka tilfellum hef ég notað sterkara hreinsunarefni en það var til að hreinsa lífrænt efni en í dag nota ég eingöngu sjóðandi vatn eða ofnhita. 

  Ég nota endurunnar krukkur úr gleri eða gamlar plastdósir til að flokka efnið í stað þess að kaupa nýtt. 

  Pakkningar eru úr pappír en ég hef þurft að nota bubbluplast til að vernda glerið í rammanum en ég er að vinna að lausn sem er bæði hagstætt og umhverfisvænt. 

  Eitt af því sem fylgir því að gera hlutina umhverfisvæna og minnka kolefnissporið er að kostnaður hækkar sem er kaldhæðnislegt í ljósi allrar umræðunnar í samfélaginu. Vefsíðan sindrandi.is var hluti af þessari hægfara vegferð að gera handverkið mitt sjálfbært. Það krefst ekki verslunarrýmis eða þess að ég keyri til vinnu á hverjum degi og ef mögulegt er þá safna ég saman því sem á að senda í póst sem er bæði hagkvæmt og umhverfisvænt.

  Samkvæmt stífustu reglum veganisma falla steinverkin ekki undir þá hugmyndafræði en ég myndi seint telja steinverkin sem grimmd við dýr þar sem að ég vel aldrei skeljar eða kuðunga sem hafa “íbúa” og hreinsunin felst aðallega í því að drepa bakteríur, sem ég held að við séum flest sammála um að falli ekki undir dýravernd!

  Eftir Handverk og hönnun sýninguna varð mér ljóst að til þess að fara eftir slow craft fræðunum verð ég að þora að segja fólki að það taki tíma að gera verkin, en það kom mér skemmtilega á óvart hversu vel fólkið tók því að fá ekki verkið strax í hendur. Það er enn von að við lærum að hægja á okkur, draga inn andann og njóta ilmsins af rósunum, við eigum jú bara eitt líf! 

Þið finnið mig í fjöru!
Kv. Geira