Jafnvægi hlutanna og lífið við sjóinn.

Ares, dans, Fjaran, Fjölskylduportret, Glerbrot, Heimsspeki, Jafnvægi, labrador, Lífið við sjóinn, morgunstund, náttúran, veður -

Jafnvægi hlutanna og lífið við sjóinn.

Lífið við sjóinn er magnaður dans við náttúruöflin, stundum er dansinn eins og brjálaður foxtrott en oftast er stigin einfaldur vals í góðum takti. 

Veður geta verið válynd í firðinum, en þó aldrei þannig að það verði vart við hræðslu, fremur dáist ég að því og ber mikla virðing fyrir þessi afli sem stýrir lífi okkar meira en við þorum að viðurkenna. 

Mér leiðist aldrei þessi dans, hann heldur mér við efnið og tengir mig við náttúruna, umhverfið og sjálfið, þessa heilögu þrenningu sem knýr mig áfram og veitir mér jafnvægi. 

Morguninn er mín uppáhalds stund sem hefst á því að ég sest niður við gluggann sem snýr út að síbreytilegum firðinum með ilmandi kaffið í múmínbollanum, dreg djúpt andann og leyfi mér njóta augnabliksins. Það er myrkur fram eftir morgni en samt verð ég vör við kraftinn fyrir utan, hann er næstum áþreifanlegur!

Í framhaldi af þessari stuttu hugleiðslu hefst morgunrútínan, koma öllum af stað inn í daginn og þegar að dagsbirtan er orðin næg kem ég mér út í fjöru með labradorinn okkar, Ares mér við hlið. 

Fjörugangan er einskonar framhald af morgunhugleiðslunni nema að henni fylgir fullur ásetningur þar sem nefi og hundstrýni er beint niður í  fjörugrjótið í leit að steinum, skeljum, sjógleri og öðrum skemmtilegum efnivið í steinverkin mín.

Efniviðurinn ræður miklu um viðfangsefni steinverksins, því að þó að ég hafi mínar hugmyndir verð ég alltaf að aðlaga mig að náttúrulegu formi efniviðsins sem gerir samvinnuna bara enn skemmtilegri fyrir vikið.

Það má með sanni segja að finna megi mig í fjöru, sama hvaða veðurbrigði er þá og þann daginn því að hver veðurútgáfa hefur sinn sjarma.

Dimmir og drungalegir dagar draga fram dökka og rauðleita liti, bjartir dagar draga upp leirljósa, brún- og blátóna  og sólskinsdagar benda á sjórekin glerbrot sem bíða eftir nýju hlutverki.

Hverfaskipting fjörunnar er þannig að stórir steinar hafa hópað sig saman neðst við fjöruborðið og upp að miðju en efst uppi, innan um skeljabrot og sólþurrkaðan þara er að finna smásteina sem ég nota oftast í steinverkin.

Það er skemmtilegt jafnvægi að finna í fjörunni, hvert lag hefur sitt hlutverk þar sem dýralífið nýtur góðs af gjöfum hafsins og ég fæ að njóta þess sem eftir situr. 

Hjartalaga steina er að finna um alla fjöru en það getur tekið dágóðan tíma að finna þann rétta, svona er listin stundum að herma eftir lífinu!

Þegar ég hef lokið fjörubröltinu fer ég í að ganga frá fjársjóðsfundi dagsins.  Allt er sett í þrif og á suðu en á meðan á því stendur kíki ég yfir fréttirnar og leyfi kaffinu að afþíða frostbitið sem hafði dreyft sér frá nefi niður í tær.

Mikilvægt er að reyna skipuleggja og flokka efnið, trúið mér að ég er margoft búin að koma mér í bobba eftir að hafa sturtað á borðið nokkrum flokkum af steinum og öðrum efnivið og ætla svo að fara ganga skipulega til verks. Ég er sek um skipulega óreiðu á vinnustofunni minni en það er í ákveðnu jafnvægi við mína vinnuaðferð og því engra breytinga að vænta á þeim vettvangi á næstunni.

Eins og vill verða með marga safnara er sumt sem af því sem þeir safna aldrei nothæft en fær samt að eiga sitt pláss. Ég verð að viðurkenna að það eru ansi margir steinar komnir í þann hóp, en ég fæ mig ekki til þess að skila þeim, því hver veit, kannski mun þessi steinn, þessi einstaki steinn vera einmitt sá rétti seinna meir… heimspeki steinanna er kannski dýpri en ég gerði mér grein fyrir!

- Geirþrúður