Framtíðin, hægfara handverk, Jafnvægi, Knús, Lífið og listin, Lífstíll, Samvinna, slow art, slow craft, slow movement, Vinnustofa -

Lífið og listin!

 

Á þessum óvissutímum sem við erum stödd í þessa stundina er fátt betra en að láta sig hverfa í heim sköpunnar og finna ástandinu jákvæðari farveg.

Ég er svo heppin að búa í mjög skapandi umhverfi í nálægð við síbreytilega náttúru sem gefur stöðuga innspýtingu til skapandi verka og eru steinverkin mín ein birtingarmynd þeirrar sköpunargleði. Í lok síðasta árs fjallaði ég um hægfara handverk (slow movement) og hvernig ég tel það hugtak eiga vel við um steinverkin mín. Ég vil meina að í framhaldi af því að taka upp þessa aðferð í handverkinu sé þessi aðferðarfræði smám saman að leka yfir líf mitt og þannig er lífið farið að herma eftir listinni!

Róleg og yfirveguð reyni ég að lifa meira í núinu og halda mig í hæfilegri fjarlægð frá hraðbraut hringiðunnar án þess þó að loka á málefni líðandi stundar eða fréttum af gangi mála.  

Í upphafi þessa árs bloggaði ég Skýr sýn árið 2020! en þar fagnaði ég öllum þeim tækifærum sem Sindrandi fékk á árinu 2019 og ætlaði að halda mig á þeirri vegferð á nýju ári. En svo gekk árið 2020 í garð og fljótlega var ljóst að það voru blikur á lofti og eins gott að stíga varlega til jarðar í framkvæmdamálum og sjá til með framhaldið. Ég hélt mig þó við þær áætlanir að skapa mér betri vinnuaðstöðu og að þýða vefsíðuna yfir á ensku og sýnist mér að það hafi tekist vel til, í það minnsta mun betur en Google þýðingaforritinu!

Árið 2020 er senn á enda, framtíðin er sem fyrr óskrifað blað og hin skýra sýn sem ég hafði fyrir þetta ár er löngu horfin í þoku fagra fyrirætlana. Næsta ár er óskrifað blað en það sama má segja um allar framtíðarbreytingar, mennirnir plana og guðirnir hlæja og hví þá að stressa sig. Framtíðin kemur á hverjum degi og hvort að þú sérst hluti af henni eða fortíðinni er það sem skilur á milli. Hægjum á okkur, njótum tímans sem okkur er gefið saman, maður er manns gaman og aldrei hefur það verið meira viðeigandi en nú! 

Listagyðjan er mér hliðholl þessa stundina og vona ég að ykkur líki vel þau verk sem koma inn á næstunni. Ég flýti mér hægt og því er um að gera fylgjast með á Facebook eða Instagram t.d. stories þar sem ég sýni oft það sem ég er að vinna að þá stundina. En þangað til næst: 

Sprittum okkur, berum grímur þar sem við á, slökum á og hlæjum með guðunum í þetta skiptið og vonandi getum við öll tekið risa-knús á línuna í nánustu framtíð!

Kósý kveðjur úr Kjós, 

Geira