Skýr sýn árið 2020 !

Skýr sýn árið 2020 !

  Með nýju ári koma ný markmið, fyrir mig persónulega er það að setja heilsuna í efsta sætið því að eins og sagt er í leiðbeiningum í flugvélinni, þá þarftu fyrst að setja súrefnið á sjálfa þig áður en þú getur aðstoðað aðra! 

Önnur markmið eru að halda áfram að þróa Sindrandi Handverk og taka þátt í fleiri mörkuðum, sinna áhugamáli mínu sem er ljósmyndun og skipuleggja vel vinnu við hús og garð í sumar. 

Árið 2019 verður mér minnistætt fyrir margar sakir en sérstaklega fyrir framfarirnar sem handverkið mitt tók og móttökurnar sem það fékk í kjölfarið.  Það er með handverk eins og flest annað, því meira sem því er sinnt því betra verður það auk þess sem það þróast með aukinni færni og skilning á miðlinum. 

Það skemmtilega við að vinna með blandaða tækni er frelsið sem það veitir mér, því að þó að ég vinni aðallega með fjörusteina og skeljar er form þeirra og áferð síbreytileg sem gefur mér lausan tauminn í hugmyndavinnslunni. 

Handverk og hönnun, Ljósanótt og aðrir markaðir á árinu gáfu mér aukið sjálfstraust í því sem ég er að gera. Sérstaklega voru umsagnir ykkar, viðskiptavina sem bæði keyptu tilbúnin verk eða treystu mér fyrir sérpöntunum, það sem byggðu upp styrk og þor til frekari verka. 

Það hefur verið mjög gefandi hversu vel listaverkunum mínum hefur verið tekið, það sem byrjaði sem föndur við eldhúsborðið hefur þróast yfir í að ég þurfti að koma handverkinu fyrir í gestahúsinu okkar sem nú er orðið að vinnustofu (með gistiaðstöðu). Skipulagning á vinnuaðstöðunni er því klárlega eitt af markmiðunum þó að eflaust eigi ég seint eftir að draga úr skipulögðu óreiðunni. 

Næstu skref eru að víkka sjóndeildarhringinn og skapa tækifæri með því að þýða vefsíðuna mína á ensku auk þess að hafa enska þýðingu á myndunum á Instagram. Er það til þess að enskumælandi fylgjendur þurfi ekki að reiða sig á hina ó-íslenskuvænu Google Translate útgáfu sem er fremur til gríns en gagns. 

Ég óska öllum gleði og gæfu árið 2020 og hlakka til að eiga enn fleiri Sindrandi ævintýri með ykkur. 

Kær kveðja, 

Geira