Sindrandi sumarfrí

endurnýting, Fjaran, Haf-men, Hugmyndavinna, Litla Hönnunar Búðin, Sjógler, Sumarfrí, túristar, veður, Viðhald -

Sindrandi sumarfrí

Viðrar vel til verka & viðhalds

Það hefur varla verið rætt um annað en veðrið þessa dagana en það er svosem ekkert nýtt enda eitt heitasta umræðuefni þjóðarinnar á degi hverjum. Veðrið hefur leikið við okkur í SV hluta landsins og Sindrandi fjölskyldan nýtti það í viðhaldsvinnu sem sumarleysið 2018 leyfði ekki auk þess að skreppa í smá frí á Suðurlandið. Við skoðuðum fossa, klöppuðum krumma, lágum í sólbaði og spiluðum mini golf og margt fleira skemmtilegt. 

Á meðan hefur Sindrandi Handverkið legið í dvala en þó ekki vanrækt, því eins og margir vita sem vinna að handverki þá fær maður hugmyndir einmitt þegar maður stígur aðeins frá daglegu amstri. Nokkrar hugmyndir eru komnar á blað og ein á frumstig sem ég mun fjalla stuttlega um í lok bloggsins og vonast ég til þess að deila meira með ykkur á næstu dögum og vikum. 

Litla Hönnunar Búðin - Frábær byrjun.

Steinverkin hafa fengið mjög jákvæða athygli í Litlu Hönnunar Búðinni við Strandgötuna í Hafnarfirði og nokkur hafa selst sem er mikið gleðiefni og innblástur til frekari verka. Andinn í búðinni er yndislegur og heiður að fá að vera hluti af þessum listræna og hæfileikaríka hóp.

Haf-men! 

Eins og ég sagði hér að ofan þá fer hugurinn á flug þegar maður fjarlægist daglegt amstur. Ein slík hugmynd hefur reyndar verið að velkjast um í dálítin tíma, svolítið eins og sjálft hráefnið, sjóglerið sem þarf sinn tíma í harðneskju hafsins til að ná réttu útliti þá þurfti þessi hugmynd að sjóast smá, ef svo má að orði komast! 

Hugmyndin er ekki ný hvað varðar notkunina á hráefninu sjálfu heldur að það sé hluti af Sindrandi Handverki. Ég ákvað að kalla þau Haf-men og er hugmyndin að nýta betur sjóglerið sem rekur á fjörur okkar og ekki hægt að nota í steinverkin. 

Þetta er einnig hluti af verkefni okkar er lítur að endurnýtingu og hreinsun hafsins en sem betur fer eru sjóglerin með fallegra fjörurusli og því um að gera nýta það til að skreyta okkur sjálf en ekki fjörurnar. 

Hér er sýnishorn af haf-meni úr sjógleri sem hefur velkst um í ólgunnar sjó og fengið þetta fallega hjartalaga útlit.

Hugmyndin er að hafa menin með vír eða bora gat í glerið og bjóða upp á með eða án keðju/leðurólar. Þetta er ekki hluti af neinni sérstakri hönnun heldur bara einfalt handverk og nýting á hráefni sem annars færi í landfyllingu. Hlakka til að sýna ykkur afraksturinn (þegar ég hef náð góðri tækni á glerborun :P ) en þangað til njótið sumarblíðunnar og munið að það er ekkert mál að panta hjá okkur á vefsíðunni, sendum frítt á næsta pósthús um land allt. 

Kærar kveðjur úr Kjósinni 

Geirþrúður