Vor í Vindheimum í blússandi núvitund.

Fjaran, geðheilbrigðismál, hugleiðsla, hugtak, Lífstíll, mindfulness, námskrá, náttúran, Núvitund, steinverk, úr borg í sveit -

Vor í Vindheimum í blússandi núvitund.

Bloggið í dag fjallar að einhverju leiti um lífstílsbreytinguna sem fylgdi því að flytja úr borg í sveit og lærdómurinn sem við öðlumst af því að búa í nánari samskiptum við náttúruöflin en áður fyrr. Ég vil meina að þessi flutningur hafi verið til hins betri fyrir á fleiri vegu en bara betra loft og minni umferð, ég hafði ekki hugsað út í það sérstaklega fyrr en ég rakst á umfjöllun um núvitund!

Núvitund (mindfulness) er eitt af þeim hugtökum sem hafa fengið nokkra athygli undanfarið en það felur í sér á einföldu máli að geta gleymt sér í stund og stað. Ástæða þess að ég kem inn á þetta hugtak er að ég var að fatta að ég hef undanfarin misseri verið óafvitandi að stunda einskonar núvitund og ákvað að kynna mér þetta nánar út frá mínum skilning á hugtakinu.

Göngur mínar í fjörunni eru mögulega dæmi um núvitund, ég geng um og anda inn sjávarloftinu sem er kryddað með ljúfum sveitailmi (blanda sem ætti pottþétt heima í ilmkerti, ef einhverjum tekst að fanga hana) og hugsa ekki um neitt annað þá stundina en gönguna mína í fjörunni. 

Eftir gönguna, með fulla vasa af grjóti skoða ég aðstæður á litla landinu okkar, ástandið á gróðrinum og horfi á fallegu Skarðsheiðina mína sem skiptir um útlit eftir veðri og vindum. Fer svo að ganga frá því sem ég fann í fjörunni, hreinsa og flokka. Allan tímann hef ég ekki leitt hugann að neinu öðru en því sem ég er að gera þar og þá. 

Þegar ég svo fer að setja saman steinverk á það sama við, ég sit við borð með fullt af steinum, skeljum, greinum og hverju því sem ég hef safnað, set hljóðbók í gang og hefst handa. 

Oftar en ekki er hljóðbókin langt komin þegar ég geri mér grein fyrir að ég hef ekki verið að fylgjast með sögunni í nokkuð langan tíma, bara einbeitt mér að steinverkinu undir ljúfum upplestri orða án tengingar.  

Stundum spóla ég tilbaka en oftar en ekki held ég bara áfram og nýt þess að vinna, í ómeðvitaðri hugleiðslu sem mögulega margir kannast við sem vinna með höndunum og gleyma sér í verkinu. 

Kannski handverk og hönnun sé eitthvað sem ætti að setja sem námsefni í skólana? Eina krafan væri að unnið væri með endurnýtt eða náttúruleg hráefni, helst eitthvað sem nemendurnir koma sjálf með og nota svo veturinn til að útfæra. Þessi áfangi væri án einkunnar og látið duga að hafa lokið eða ólokið þar sem ferðalagið í verkinu er ávinningurinn en ekki áfangastaðurinn. 

Mögulega eru einhverjir skólar komnir með eitthvað í líkingu við þetta inn í sitt skólastarf en miðað við fréttir af geðheilbrigðisvanda þjóðarinnar mætti skoða nánar að setja þetta inn sem hluta af námskrá! Hvað segið þið? 

Núvitundarkveðjur, 

Geirþrúður