Um okkur

Hver er Geira Geirs?

  Ég hef þann heiður að vera nefnd í höfuðið á langalanga ömmu minni, Geirþrúði Geirsdótttur og móður minni, Ósk Sigmundsdóttur. Ég er fædd 10. febrúar árið 1977 og er því samkvæmt fræðunum jarðbundin skýjahnoðri og er í  Vatnsberamerkinu! Stolt suðurnesjamær, uppalin í Y-Njarðvíkum, Reykjanesbæ, þar sem ég bjó lengst af með stuttu stoppi í höfuðborginni á meðan ég stundaði háskólanám eða þar til að ég flutti í Kjósina árið 2016   

Hóf nám við Háskóla Íslands árið 2008 í sagnfræði sem ég lauk árið 2012 með BA gráðu og hef svo bætt við mig diplóma í safnafræði og upplýsingafræði. 

 Það hefur hins vegar alltaf búið listakona í mér og sveitasælan í Kjósinni varð sá innblástur sem þurfti til að ég ákvað að hleypa henni út, breiða út vængina og sjá hvert það myndi bera mig. 

 Afhverju steinar?

  Listaverk með fjörusteina kom til vegna þess að ég hef alltaf verið hrifin af  steinum og eins og svo margir safnað steinum í hinum ýmsu ferðalögum og göngum bæði á fjalli og í fjöru. 

  Með fulla vasa af grjóti, og nú búsett við fjöruborðið í Hvalfirði, hófst ég handa um vorið árið 2017 við að blása lífi í steinana mína og eftir smá nokkrar tilraunir varð til fyrsta steinverkið mitt "Ást í Öræfum". Síðan þá hafa bæði verkin mín og aðferðir tekið breytingum og þróast og er ég spennt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér á þeim vettvangi. 

Kjósin okkar 

  Umhverfið í Kjósinni fyllir mann innblæstri og orku til ótrúlegustu verka. Veturinn 2016 fluttum við fjölskylduna í Kjósina, alveg niður við Hvalfjörðinn sem gerði að verkum að ég fór reglulega að stunda fjörugöngur með fjölskylduhundinum, Ares.
Fyrsta tækifærið til að koma listaverkunum mínum á framfæri var með sýningu á Kaffi Kjós vorið 2018 sem hlaut mikið lof og hvatti mig til frekari verka. Má með sanni segja að frá upphafi hafi jákvæða orkan frá fyrstu sýningunni verið stöðugur innblástur í seglin sem stýrir mér örugglega í hverja höfn. 
 
Hörður Jónsson, ástin mín og samverkamaður í flest öllu var mér til halds og trausts þegar kom að hönnun og uppsetningu á glæsilegri vefsíðu sem ég ofboðslega stolt af og innilega þakklát hans aðkomu. 
Vefsíðunni er í senn ætlað að vera sýningarsíða á eldri og núverandi verkum en einnig er hægt að versla listaverk beint í gegnum vefverslun.    
 

Handverks, - og sölusýningar

     2019

 

     2018

  • Kaffi Kjós
  • Kátt í Kjós - markaður í Félagsgarði 
  • Aðventumarkaðurinn í Kjós
  • Mimos nuddstofa (sölusýning)
  • Punt & prent í Glæsibæ 

    Bestu þakkir fyrir að fylgjast með og vonum við að bæði listaverkin og vefsíðan haldi áfram að vaxa og dafna með ykkar aðstoð. 

    Geira Geirs og Hörður Jónsson